Vaðlaheiðargöng hf. fengu fyrr á þessu ári 375 milljóna króna greiðslu frá erlendum tryggingarfélögum vegna kostnaðar sem til féll vegna stórs grjóthruns Fnjóskadalsmegin í göngunum samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Í ársreikningi Vaðlaheiðarganga kemur fram að framkvæmdin hafi verið með 500 milljóna króna tryggingu en frá þeirri upphæð dróst 100 milljóna króna sjálfsábyrgð samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Greiðslan kemur því upp í aukinn kostnað af göngunum sem búist er við að fari 30% fram úr áætlun. Kostnaður við verkið að meðtöldum fjármagnskostnaði er talinn verða 15,5 milljarðar króna samkvæmt úttekt sem Friðrik Friðriksson rekstrarhagfræðingur vann fyrir Fjármála- og efnahagsráðuneytið og kom út í ágúst. Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði Friðrik sem stjórnarformann Vaðlaheiðarganga hf. á meðan skýrslan var unnin.

Vaðlaheiðargöng vart einkaframkvæmd

Í úttektinni kom fram að að ekki væri hægt að líta á gangagerðina sem einkaframkvæmd þó að hún hafi verið kynnt sem slík. Einkaaðilar hafi lagt til innan við 1% af heildarkostnaði verkefnisins. Eina fjármögnun einkaaðila á verkefninu hafi verið að leggja fram um þriðjungshlutafé Greiðrar leiðar ehf. sem samtals hefur numið 396 milljónum króna og á 66% í Vaðlaheið- argöngum. Aðrir hluthafar í göngunum eru opinberir aðilar, ríkið og sveitarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu. Þá hefur ríkið lánað yfir 12 milljarða króna til gangagerðarinnar. Í sumar voru samþykkt lög sem heimiluðu ríkissjóði að lána 4,7 milljarða króna til viðbótar til Vaðlaheiðarganga, og þar af er búist við að gengið verði að 3,5 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .