Að sögn Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Nýja Kaupþings, hefur bankinn vakið athygli Fjármálaeftirlitsins, sem er hinn lögboðni eftirlitsaðili með fjármálastarfsemi, á því að upplýsingar úr lánabókum  bankans eru í umferð. Að sögn Finns takmarkast viðbrögð bankans við það að svo stöddu.

-   En það er ekki á ykkar könnu að gera eitthvað sjálfstætt varðandi þetta mál, svo sem að framkvæma innanhúsrannsókn eða eitthvað slíkt?

,,Við vitum hvaða skjal þetta er. Þó þetta hafi verið kallað lánabók þá er um að ræða tiltekna skýrslu sem var útbúin fram á mitt ár 2006 þar sem koma fram upplýsingar um skuldastöðu fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Slík skýrsla var útbúin mánaðarlega og dreift á mjög þröngan hóp hér innanhúss og til Fjármálaeftirlitsins.“

-    Þið vitið þá nákvæmlega hvaða skýrsla er í umferð?

,,Já.“

-   Og þið vitið þá hvaða hópur hefur haft aðgengi að henni?

,,Já. Staðreyndin er þó sú að frá bankahruninu í október sl. hefur bankinn þurft að afhenda ítarlegri upplýsingar um viðskiptavini og til fleiri aðila en nokkru sinni áður, bæði innlendra og erlendra. Tölvur hafa verið fjarlægðar, afrit hefur verið tekið af tölvutækum gögnum og rafrænar og prentaðar skýrslur skoðaðar. Upplýsingar um viðskiptavini hafa verið teknar frá okkur í þágu þeirra rannsókna á og uppgjöra við fortíðina sem nú fara fram.  Það má kannski segja að það sé erfiðara að passa upp á hluti en áður var.“

-   Skil ég þig þannig að það sé erfiðara að passa upplýsingar en áður?

,, Þagnarskylda um málefni viðskiptavina er innprentuð í huga sérhvers bankamanns frá fyrsta starfsdegi. Þess vegna líður mörgum illa með það sem er að gerast þessa daganna.“

Óvissa hjá viðskiptavinum

-    Væntanlega verðið þið var við óvissu hjá viðskiptavinum?

,,Því er ekki að leyna. Í samskiptum viðskiptavina við starfsfólk bankans hefur komið fram að fólk hefur áhyggjur af því að upplýsingar séu að berast úr bankanum um málefni einstakra viðskiptavina. Það er áhyggjuefni.“

Þær upplýsingar sem hér um ræðir hafa undanfarið birst í DV auk þess sem aðrir miðlar í eigu Birtings, útgáfufélags DV, hafa haft aðgengi að þeim. Margir viðmælenda Viðskiptablaðsins hafa undrast að ekki hafi verið gripið til lögbannsaðgerða vegna þeirra. Umræddar skýrslur munu fyrst og fremst innihalda skrár um skuldastöður einstaklinga en ekki eignir og aðrar hreyfingar á reikningum viðkomandi aðila innan bankans.

Þess má geta að svipað tilvik átti sér stað fyrr á árinu þegar Morgunblaðið birti upplýsingar úr lánabók Íslandsbanka/Glitnis og mun það mál enn vera í rannsókn.