Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að horfum fyrir lánshæfismat Ríkissjóðs Íslands vegna langtímaskuldbindinga í erlendri og innlendri mynt hafi verið breytt í neikvæðar úr stöðugum.

Lánshæfiseinkunn fyrir erlendar langtímaskuldbindingar var staðfest A+ (A plús) og fyrir innlendar langtímaskuldbindingar AA+ (AA plús). Samhliða þessu var lánshæfiseinkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar F1 og landseinkunn AA- (e. country ceiling ratings) staðfest. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Breytingar á horfum ríkissjóðs endurspegla það að lánshæfiseinkunnir þriggja stærstu viðskiptabankanna Glitnis, Kaupþings banka og Landsbanka eru nú til neikvæðrar athugunar (e.  Rating Watch Negative.)

„Ef Fitch kemst að þeirri niðurstöðu að lánastaða (e. credit profile) stærstu bankanna á Íslandi hafi versnað gæti myndast neikvæður þrýstingur á lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs, þ.e. ef Fitch telur að erfiðleikar tengdir bankakerfinu feli í sér verulega aukna hættu fyrir þjóðhagslegan stöðugleika og lánshæfi ríkissjóðs,” segir Paul Rawkins sérfræðingur Fitch Ratings.

Fitch segir að þótt íslensk stjórnvöld hafi nýverið gefið út tilkynningu þar sem greint er frá vilja þeirra til að veita bankakerfinu stuðning hafi þeim ekki borist nein ósk um aðstoð né hafi þau talið að beinnar lausafjárfyrirgreiðslu eða annarrar aðstoðar sé þörf. Matsfyrirtækið ítrekar að lánshæfi Ríkissjóðs Íslands standi á sterkum grunni þar sem hreinar skuldir hins opinbera séu aðeins 8% af vergri landsframleiðslu, afgangur af fjárlögum hefur verið samfelldur frá árinu 2004 og greiðslubyrði mjög lítil.

Auk þess er lánastaðan (e. credit profile) hagstæð og stjórnvöld hafa aðgang að ýmsum fjármögnunarmöguleikum, þar með talið skuldabréfaútgáfu í erlendri og innlendri mynt og eins geta stjórnvöld dregið á tryggar lánalínur (e. committeed credit lines) hjá stórum alþjóðlegum fjármálastofnunum. Engu að síður er stærð íslenska fjármálakerfisins á samstæðugrunni í lok júní 2007 næstum 900% af vergri landsframleiðslu og því gefur það til kynna mikilvægi þess að viðbrögð stjórnvalda við vanda í fjármálakerfi séu viðeigandi og yfirveguð (e. measured) og feli í sér stuðning og efli traust á bönkunum án þess að grafa undan lánshæfi ríkissjóðs.