Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch hefur hækkað lánshæfismat ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt um einn flokk og fer lánshæfiseinkunnin við það úr BBB- í BBB. Þá var jafnframt staðfest lánshæfismatið BBB+ fyrir langtímaskuldir í innlendri mynt. Horfur eru stöðugar, að mati Fitch.

Þetta er önnur breytingin sem matsfyrirtæki hefur gert á lánshæfi ríkissjóðs en Moody's breytti horfunum á Baa3 lánshæfiseinkunn ríkisins úr neikvæðum í stöðugar 7. febrúar síðastlðinn eftir af EFTA-dómstólinn sýknaði Ísland í Icesave-málinu.

Fitch staðfesti jafnframt lánshæfismatið F3 fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt og hækkað landseinkunnina (e. Country Ceiling) í BBB frá BBB-. Horfur fyrir lánshæfismat á langtímaskuldbindingum eru stöðugar.