Lánshæfiseinkunn ríkisjóðs endurspeglar efnahagsbata hér eftir hrunið haustið 2008, að mati Fitch. Forsendur matsfyrirtækisins fyrir því að færa lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs upp um einn flokk, úr BBB- í BBB eru þær að hagkerfið hefur ekki fengið á sig sjó vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu, góður gangur er í ríkisbúskapnum og skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu hafa lækkað og að draga úr atvinnuleysi. Þá munar talsverður að stjórnvöld voru sýknuð af stefnu Eftirlitsstofnun EFTA í Icesave-málinu.  Hefði dómurinn farið á hinn veginn hefði það haft neikvæð áhrif á ríkissjóðs og aukið skuldir hins opinbera í versta falli um allt að 19% af landsframleiðslu.

Í rökum Fitch er jafnframt talið ríkissjóði til tekna að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda hér hafi gengið samkvæmt áætlun og sé henni lokið. Þá er búist við að jöfnuður náist í ríkisfjármálum árið 2016.

Ísland í flokki með Írum og Spánverjum

Til samanburðar bendir Fitch á að þau lönd sem hafi farið illa í fjármálakreppunni á evrusvæðinu hafi sambærilega einkunn og ríkissjóður. Írland er með lánshæfiseinkunnina BBB+ og Spán með BBB eins og ríkissjóður.

Fitch dvelur í forsendum sínum sérstaklega við lægri skuldir hins opinbera. Bent er á að skuldirnar hafi numið 101% sem hlutfall af landsframleiðslu í lok árs 2011. Áætlað sé að um síðustu áramót hafi þær verið komnar niður í 96% og stefni í að þær verði komnar niður í 69% árið 2021.

Fitch bendir á að efnahagsbatinn hafi opnað ríkissjóði dyr að alþjóðlegum lánamörkuðum á nýjan leik og gert stjórnvöldum kleift að endurgreiða 55% af lánum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Norðurlöndin veittu landinu á sínum tíma.