Gengi hlutabréfa lækkaði almennt í helstu kauphöllunum á meginlandi í Evrópu í dag í kjölfar þess hversu óljósar niðurstöðurnar voru af þingkosningunum á Ítalíu í gær. Ekki er útilokað að stjórnarmyndunarviðræður dragist á langinn. Verði það raunin kann svo að fara að þær björgunaraðgerðir sem ráðist hefur verið í til að staga í ítalska hagkerfið síðustu misserin fari út um þúfur.

Jafnaðarflokkur Beppe Grillo fékk 25% atkvæða og tryggði sér nauman meirihluta í neðri deild ítalska þingsins. Öðru máli gegnir hins vegar um efri deild þingsins. Stjórnarmyndunarviðræður eru því í höndum Grillo. Stjórnmálaskýrendur á meginlandi Evrópu, s.s. hjá breska dagblaðinu Guardian , segja hann geta myndað meirihlutastjórn með Pier Luigi Bersani, sem jafnframt er á vinstrivængnum  Með nauman meirihluta í annarri deildinni þyki hins vegar líklegra en hitt að efnahagsaðgerðir og önnur mál meirihlutans í neðri deildinni strandi í þeirri efri.

Aðalvísitala hlutabréfa á Ítalíu féll um 4,9% í dag. Svipaða sögu er að segja af hlutabréfavísitölum í fleiri löndum. Þannig féll CAC 40-vísitalan í Frakklandi um tæp 2,7%, DAX-vísitalan í Þýskalandi féll um 2,27% og FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkaði um 1,3%. Þá lækkaði heimsmarkaðsverð á hráolíu vegna ótta við að draga muni úr eftirspurn eftir olíu á evrusvæðinu og lántökukostnaður Ítala hækkaði.