Fjögur tilboð bárust í borun vinnsluholu í Tungudal í Skutulsfirði, en tilboð voru opnuð í dag. Boðnar voru út tvær mismunandi boraðferðir og mismunandi dýptir og buðu tvö fyrirtæki í báðar aðferðirnar. Þannig bauð Ræktunarsamband Flóa og Skeiða á Selfossi 87 milljónir króna í skáborun með 350 metra fóðringu á meðan Jarðboranir í Kópavogi buðu 124 milljónir í sama verk. Ræktunarsambandið bauð 133 milljónir króna í skáborun og 850 metra fóðringu, en Jarðboranir buðu 155 milljónir í sama verk, að því er segir á vef Bæjarins besta á Ísafirði.

Í tilkynningu frá framkvæmdastjóra orkusvið Orkubús Vestfjarða segir að það að hafa tvær aðferðir í boði væri ekki síst til að auka samkeppnina þannig að helstu borverktakar landsins hefðu möguleika á að bjóða í verkið með þeim tækjum í landinu.

„Önnur boraðferðin er svokölluð „skáborun“ þar sem borturninum er skekkt um 15° og eftir að borun hefst er ekki hægt að breyta stefnu borkrónunnar. Hin aðferðin er svokölluð „stefnuborun“ þar sem fyrst er borað lóðrétt niður á 350 metra dýpi, en þar fyrir neðan er beygt út úr holunni og borðað eftir það með 35° halla. Halla og stefnu holunnar er stýrt með mælitækjum sem eru niðri í borstrengnum. Upphæðir í tilboðinu taka mið af 1.200 metra borlengd í skáboruninni og 1.350 metrum í stefnuborunni“, segir svo í tilkynningunni.