Atlantsskip hafa bætt skipakost sinn og geta nú boðið vikulegar siglingar frá Evrópu ásamt því að bæta við höfn í Bretlandi, nánar tiltekið Immingham. Nú bjóðast því vikulegar siglingar frá Esbjerg í Danmörku, Rotterdam í Hollandi og Immingham í Englandi.

Þessi breyting á Evrópusiglingunum er gerð vegna mikillar eftirspurnar eftir flutningi milli Evrópu og Íslands segir í tilkynningu frá félaginu. Var því hægt að fjölga skipum á þessum leiðum.

Frá því Atlantsskip hóf flutninga til og frá Evrópu hefur eftirspurnin aukist stöðugt. Forráðamenn íslenskra fyrirtæki kunna því vel að meta lægra flutningsgjald á þessum leiðum og vonandi kunna þeir enn betur að meta aukna tíðni í siglingum.

Eftir sem áður býður Atlantsskip áframflutninga til og frá nánast öllum stöðum í heiminum í gegnum viðkomuhafnir fyrirtækisins í Evrópu og Bandaríkjunum.