Ótímabundnar verkfallsaðgerðir um 1.800 félagsmanna stéttarfélagsins Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg, sem staðið hafa yfir síðan 17. febrúar síðastliðnum virðast ekki raska ró borgarbúa og enn síður íbúa nágrannasveitarfélaganna.

Þannig segjast nær þriðjungur Reykvíkinga ekki hafa orðið fyrir neinum áhrifum af verkfallsaðgerðunum og rúmlega 37% fyrir litlum áhrifum að því er fram kemur í nýjum Þjóðarpúls Gallup, eða samtals um 70% íbúanna. Jafnframt hafa ríflega 8 af 10 íbúa nágrannasveitarfélaganna ekki orðið fyrir neinum áhrifum.

Á sama tíma virðist hátt í þriðjungur Reykvíkinga styðja aðgerðir Eflingar að öllu leyti, og ríflega fjórðungur að miklu leyti, eða samanlagt 58% íbúanna. Stuðningurinn er svo aðeins minni hjá íbúum nágrannasveitarfélaganna, en meðal þeirra styðja tæplega 18% aðgerðirnar að öllu leyti og 26% að nokkru leyti.

Þjóðarpúls Gallup var framkvæmdur 24. febrúar til 2. mars, en í könnunni var spurt annars vegar hvort fólk studdi aðgerðir Eflingar og hins vegar um áhrif þeirra á fólk.

Sama hlutfall finnur fyrir miklum áhrifum og styður aðgerðirnar alls ekki

Tæplega 12% Reykvíkinga segjast hins vegar hafa orðið fyrir miklum áhrifum af verkfallsaðgerðunum og nær 19% hafa orðið fyrir nokkrum áhrifum. Meðal íbúa nágrannasveitarfélaganna segjast 14% hafa orðið fyrir litlum áhrifum meðan 5% hafa orðið fyrir nokkrum eða miklum áhrifum.

Um 15% Reykvíkinga styðja aðgerðir Eflingar að litlu leyti og hátt í 12% alls ekki, meðan um 16% segjast hvorki styðja þær né ekki. Aðeins fleiri eru hlutlausir meðal íbúa nágrannasveitarfélaganna, eða 17%, meðan 19% þeirra styðja þær að litlu leyti og fimmtungur alls ekki.

Loks eru íbúar annarra sveitarfélaga, eða landsbyggðarinnar enn hlutlausari, en 26% þeirra hvorki styður þær né ekki, en 23% styðja þær annað hvort að litlu leyti eða alls ekki, meðan 51% þeirra styðja þær að miklu leyti eða öllu leyti, ívið fleiri í síðarnefnda hópnum.