Flugvöllurinn á Brussel opnar á morgun í fyrsta sinn eftir hryðjuverkaárásirnar þar fyrir 12 dögum. Aðeins þrjú flug Brussel Airlines NV, til Faro, Tórínó og Aþenu, eru áætluð.

Búið er að koma fyrir tjöldum fyrir utan flugvallarbygginguna þar sem leitað verður á farþegum og farangri þeirra. Þá verður leitað af handahófi í bílum sem fara eftir veginum í átt að flugvellinum.

Bloomberg hefur efti Arnaud Feist, framkvæmdastjóra flugvallarins, að þessar ráðstafanir muni gera það að verkum að för farþega um flugvöllinn verði ekki jafn þægileg og áður var. Vonast sé til að hægt flugvöllurinn muni vera rekinn á hámarksafköstum í byrjun júlí.

Þessar ströngu öryggisráðstafanir voru niðurstaða samningaviðræðna milli stjórnvalda í Belgíu og stéttarfélaga lögreglumanna, en starfsmenn öryggisgæslunnar á flugvellinum höfðu miklar áhyggjur af öryggismálum þar og vildu ekki að flugvöllurinn yrði opnaður nema strangar öryggisráðstafanir yrðu gerðar.