Birgir Bieltvedt mun taka við sem stjórnarformaður danska tískuhússins Day Birger et Mikkelsen í kjölfar kaupa íslenska félagsins M-Invest á 50% hlut í félaginu, segir í tilkynningu. Baugur á 75% hlut í M-Invest og félag Birgis, B2B, á 25% hlut.

Viðskiptablaðið greindi frá kaupnum í gær en félagið sendi frá sér tilkynningu í dag. Þar segir að kaupin séu gerð í gegnum eignarhaldsfélagið Mikkelsen Holding, sem er í eigu M-Invest. M-Invest er dótturfélag M-Holding, sem á og rekur dönsku stórversanirnar Magasin og Illums.

Í tilkynningunni segir að auk þess að kaupa 50% hlut í danska fyrirtækinu, hafi M-Invest samþykkt að fjármagna áhframhaldandi vöxt félagsins utan Danmerkur.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að líklegt sé að Day-verslun verði opnuð í bresku stórverslunarkeðjunni House of Fraser, sem Baugur ásamt fleiri fjárfestum keypti nýlega fyrir 75 milljarða króna að meðtöldum skuldum. Kaupverðið á Day Birger et Mikkelsen hefur ekki verið gefið upp.