Kjarasamningurinn, sem undirritaður var 29. maí á síðasta ári, hvílir á þremur meginforsendum, sem eru til skoðunar þessa dagana. Forsendurnar eru í grófum dráttum að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum, launastefna kjarasamningsins verði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamninga og að fullar efndir verði á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samninginn.

Svokölluð forsendunefnd, sem skipuð er tveimur fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og tveimur fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar þarf að skila niðurstöðu fyrir lok febrúar um það hvort samningurinn standist þessar forsendur.

Ljóst er að forsendur um kaupmátt launa og launastefnuna standast skoðun en ekki er hægt að segja hið sama um forsenduna sem snýr að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega loforði um úrbætur í húsnæðismálum.

„Við þurfum að komast að niðurstöðu fyrir lok þessa mánaðar," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og vísar til vinnu forsendunefndarinnar. „Verðbólgan er lág, kaupmáttur að vaxa og með þeim kjarasamningum sem við gerðum liggur ljóst fyrir að launastefnan er sameiginleg. Það er enginn forsendurbrestur hvað þetta varðar. Það er alveg ljóst að það sem stendur út af borðinu eru húsnæðismálin."

Spurður hvað gerist ef húsnæðisfrumvörpin verði ekki afgreidd í febrúar svarar Gylfi: „Þá er forsendubrestur. Það er ekki hægt að efna svikin loforð með nýrri yfirlýsingu um að vinnan sé í gangi. Það er ekki hægt að segja að ríkisstjórnin hafi bara lofað að leggja málin fyrir þingið. Það átti að vera búið að afgreiða þetta fyrir jól."

Þarf að finna lausn

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ákaflega mikilvægt að þingið vandi vel til verka þegar verið sé að gera jafn viðamiklar breytingar húsnæðiskerfinu og til stendur.

„Frumvörpin eru komin fram og ég ætla að stjórnvöld muni ljúka málinu þó svo þau þurfi rýmri tíma til þess en upphaflega var gert ráð fyrir," segir Þorsteinn.

Miðað við orð Gylfa er verkalýðshreyfingin mjög staðföst og telur kláran forsendurbrest ef málið verði ekki klárað núna í febrúar. Um þetta segir Þorsteinn: „Við þurfum að setjast niður og finna lausn á þessu máli."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .