„Ýmsar fullyrðingar hafa komið fram um starfsemi Fjármálaeftirlitsins í opinberri umræðu undanfarinna daga sem ástæða er til að leiðrétta. Því er til dæmis haldið fram að rannsóknarvinna vegna efnahagshrunsins sé meira eða minna í uppnámi. Þetta á ekki á við rök að styðjast. Fjarri því,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) í pistli sem hún birtir á heimasíðu eftirlitsins.

Hún segir að rannsóknir á efnahagshruninu gangi samkvæmt áætlun. „Þessi þáttur starfseminnar er tímabundinn og er gert ráð fyrir að hann vari til loka árs 2012.  Því skal einnig til haga haldið að rannsóknarvinnan er aðeins hluti starfseminnar en 15 manns vinna nú að rannsóknarvinnunni af alls 115 starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins.“

Unnur var ráðinn sem forstjóri FME í síðustu viku, í kjölfar þess að Gunnari Andersen var vikið úr starfi. „Ég gerði mér grein fyrir því í aðdraganda tíðindanna í síðastliðinni viku að ég kynni að standa frammi fyrir því að taka að mér starf forstjóra fyrirvaralaust og við erfiðar innri aðstæður í Fjármálaeftirlitinu. Ég tók þeirri áskorun og horfi fram á veginn í starfseminni, ásamt stjórn, öðrum stjórnendum og starfsmönnum FME,“ segir Unnur í pistlinum.

Grein Unnar í heild .