Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir að mikill meirihluti læknakandídata hafi ekki ráðið sig til starfa á Landspítalanum eins og þeir gera venjulega. Haft er eftir formanni félags almennra lækna, Ómari Sigurvin Gunnarssyni, að fólkið sagðist ekki geta unnið við aðstæður sem boðið væri upp á á LSH, hvorki starfsaðstöðu né laun.

Björn Zoëga, forstjóri LSH, sagði við Ríkisútvarpið í morgun að hann hefði ekki áhyggjur af því að það komi til einhverra vinnudeilna vegna þessa máls. Í Fréttablaðinu útskýrir hann að það sé Læknafélagið og fjármálaráðuneytið sem semji um kjör kandidata og kjarasamningur sé ekki laus. Kandídatar séu í annarri stöðu en aðrir starfsmenn spítalans. Starfið sé hluti af námi þeirra og þjálfun og forsenda þess að þeir fái lækningaleyfi. Þetta sé launað starfsnám.