Fossar fjárfestingarbanki tapaði 77 milljónum króna árið 2022, samanborið við tæplega hálfs milljarðs króna hagnað árið 2021. „Afkoma Fossa fjárfestingarbanka á árinu 2022 var viðunandi miðað við þá kostnaðarsömu uppbyggingu sem ráðist var í á árinu,“ segir í tilkynningu.

Verri afkoma er m.a. rakin til hlutdeildar í afkomu sjóðas‎týringarfélagsins Glyms sem var neikvæð um 35 milljónir. Þá nemi kostnaður sem rekja megi beint til umbreytingar Fossa úr verðbréfafyrirtæki í banka um 240 milljónum króna. Jafnframt hafi erfiðar ytri aðstæður á mörkuðum komið niður á tekjum.

„Árið 2022 var mikið umbreytingarár í sögu Fossa þar sem verðbréfafyrirtæki var breytt í banka. Reksturinn litaðist töluvert af fjárfestingu í nýrri starfsemi sem mun skila sér hratt á komandi misserum. Áskoranir í ytra umhverfi voru einnig umtalsverðar og tafir á útgáfu nýs starfsleyfis gerðu að verkum að nýir tekjustraumar komu inn síðar á árinu en gert hafði verið ráð fyrir,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa.

„Önnur markmið en fjárhagsleg náðust hins vegar að öllu leyti. Það felur meðal annars í sér útgáfu nýs starfsleyfis, uppbyggingu innviða, ný tekjusvið og ráðningar framúrskarandi einstaklinga, en starfsmannafjöldi Fossa tvöfaldaðist á árinu. Kostnaðarsamt er að setja nýjan banka á laggirnar, en að sama skapi fjárfesting í tekjum til framtíðar.“

Heildareignir Fossa fjárfestingarbanka námu 7,4 milljörðum króna í lok árs 2022 samanborið við 1,2 milljarða árið áður. Lán til viðskiptavina námu 1.390 milljónum króna og jukust um 1.142 milljónir á árinu.

Eignir í stýringu í móður- og dótturfélagi um áramót námu 20,9 milljörðum króna og eignir í fjárvörslu 47,5 milljörðum.

Skipta um gír

VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka tilkynntu um miðjan febrúar að þeir hefðu ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum. Gert er ráð fyrir að hluthafar Fossa fái 260 milljónir nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu.

„Á árinu 2023 skiptum við um gír og sækjum fram með markvissum hætti. Tilkynnt hefur verið um viðræður við VÍS um sameiningu félaganna á grundvelli viljayfirlýsingar. Gangi það eftir yrði til öflugt fjármálafyrirtæki í sterkri stöðu til að nýta möguleika til vaxtar á fjármálamarkaði,“ segir Haraldur.