Framkvæmdarstjórn FIFA hefur ákveðið að leggja fram sína eigin eftirlaunaáætlun, sem vafalaust mun vekja athygli þeirra sem sjá um fyrirtækjarekstur, segir í frétt Financial Times.

Áætlunin sem var kynnt í rekstrarárskýrslu FIFA fyrir árið 2005, gerir ráð fyrir að 8 milljónir evra (737 milljónir króna) úr sjóðum FIFA þurfi að leggja í áætlunina. Háttsettur embættismaður hjá FIFA sagði að þessa upphæð þyrfti, miðað við að hóflegasta leið væri farin til að uppfylla áætlunina, segir í fréttinni.

Í dag eru 17 meðlimir stjórnarinnar sem hafa setið í stjórninni, eða munu fljótlega hafa setið nægilega lengi til að eiga kost á eftirlaunum. Þetta mun tryggja þeim árlega 3% af 3,7 milljón króna árslaunum þeirra margfaldað með árafjölda sem þeir hafa setið í stjórninni.

Þannig myndi, til dæmis, Jack Warner frá Trinidad og Tobago, sem er 63 ára gamall og hefur setið lengst í nefndinni, eða í 23 ár, eiga rétt á 2,2 milljónum króna á ári, í 23 ár.

Nú þegar sífellt hærri upphæðum er dælt inn í íþróttina og heimsbikarmótið að hefjast í Þýskalandi á laugardag, er sífellt meiri þrýstingur á fótboltaheiminn að losa sig við orðspor um ofhóf og sukk, sem þykir einkenna íþróttina í dag, segir í fréttinni.