Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnureknda (FA), segir að uppboð á tollkvótum leiði af sér að innlendum framleiðendum er í lófa lagið að bjóða hátt í innflutningskvóta og hækka þannig verðið á innflutningnum. „Framleiðendur geta þannig flutt inn kjötið á verði sem veitir þeim enga samkeppni,“ segi Ólafur í samtali við Viðskiptablaðið.

Mata fær 70% af tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir svínakjöt

FA sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að Mata hf., systurfélag Síldar og fisks, fái í ár um 70% af tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir svínakjöt frá ESB sem atvinnuvegaráðuneytið úthlutar.

Síld og fiskur er einn umsvifamesti svínakjötsframleiðandi landsins og félögin bæði í eigu Langasjávar, sem aftur er að stærstum hluta í eigu Coldrock Investments á Möltu. Mata hefur mörg undanfarin ár boðið einna hæst í tollkvóta fyrir svínakjöt og fengið hátt hlutfall hans í sinn hlut.

FA segir það skjóta skökku við að félag sem fær milljarða meðgjöf frá neytendum í formi tollverndar skuli komast í aðstöðu til að hækka verðið á þeim vörum sem átti að flytja inn á engum eða lágum tollum, neytendum til hagsbóta.

Ýmsar aðrar leiðir færar

Aðspurður segir Ólafur ýmsar leiðir færar í stað núverandi fyrirkomulags. „Ein leiðin væri að innlendum framleiðendum væri einfaldlega óheimilt að bjóða í tollana. Önnur væri að hætta uppboðunum og beita öðrum aðferðum við úthlutun.“