Standi eitthvað út af Icesave-láninu árið 2024 framlengist það sjálfkrafa til ársins 2030 og síðan enn og aftur til næstu fimm ára, verði enn eithvað ógreitt. Þetta er meðal niðurstaðna í Icesave-viðræðum íslenskra embættismanna við Breta og Hollendinga.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar kynntu niðurstöðuna í dag.

Alþingi samþykkti Icesave-ríkisábyrgð í lok sumars og bætti við efnahagslegum og lagalegum fyrirvörum. Alþingi vildi til að mynda að viðræður yrðu teknar upp að nýju við Breta og Hollendinga árið 2024 stæði þá eitthvað eftir af láninu.

Þeim fyrirvara hefur nú verið breytt, samkvæmt niðurstöðunum sem kynntar voru í dag, og greint var frá hér að ofan. Því lánið á þá að framlengjast sjálfkrafa.

Stefnt er að því að frumvarp um breytingar á Icesave-ríkisábyrgðinni verði lagt fram á Alþingi á morgun.

Yfirlýsingu forystumanna ríkisstjórnarinnar vegna málsins má nálgast í heild sinni hér.