Stjórn Framtakssjóðs Íslands mun falla frá væntanlegu útboði á hlutabréfum Fjarskipta, móðurfélags Vodafone á Íslandi, ef Fjarskipti uppfylla ekki skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár eða ef Kauphöllin samþykkir ekki í desember 2012 fyrirliggjandi umsókn stjórnar Fjarskipta um að taka öll hlutabréf útgefin af félaginu til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Kemur þetta fram í viðauka við útboðslýsingu Fjarskipta, sem birtur var á vef Kauphallarinnar í dag.

Fyrir breytinguna sagði í útboðslýsingunni að Framtakssjóðurinn áskildi sér rétt til að hætta við útboðið ef áðurnefnd markmið náist ekki. Breytingin felur m.ö.o. í sér fullyrðingu um að svo verði gert ef markmiðin nást ekki.

Þá er bætt við lýsinguna upplýsingum um það að Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Fjarskipta, er kvæntur Helgu Árnadóttur, stjórnarmanni í Framtakssjóði Íslands.