Fréttamenn 365 miðla og Ríkisútvarpsins eru með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í för hans til Úkraínu.

Eins og greint hefur verið frá hélt Gunnar Bragi í ferðina í dag. Hann fer meðal annars með Sunnu Gunnu Marteins aðstoðarmanni sínum og Urði Gunnarsdóttur upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

Gunnar Bragi segir á facebooksíðu sinni að með þessari ferð sé ætlunin að tengjast bráðabirgðastjórninni í Úkraínu og sýna um leið stuðning við úkraínsku þjóðina. „Við munum funda með settum utanríkisráðherra, þingmönnum og fulltrúum nokkurra félagasamtaka, ræða ástandið og framtíðina,“ segir hann.

Fréttamennirnir munu væntanlega fylgja Gunnari Braga um hvert fótmál. Fréttastofa RÚV sendi Björn Malmquist fréttamann til verkefnisins en 365 miðlar sendu Heimi Má Pétursson.