Traust almennings til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, hefur aukist lítillega síðastliðið ár en hann nýtur núna meira trausts meðal almennings en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Þá hefur traust Bjarna meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins lítið breyst.

Þetta sýnir ný könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum. Rétt er að taka fram að MMR birti fyrstu könnun sína í þessum flokk í desember 2008 en Bjarni varð formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 2009. Þetta er því í þriðja sinn sem Bjarni er talinn með í traustkönnun MMR.

Um 19% landsmanna ber „frekar eða mjög mikið“ traust til Bjarna samkvæmt könnuninni á meðan 51% sögðust bera  „frekar eða mjög lítið“ traust til hans. Á eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, er Bjarni sá stjórnmálamaður sem almenningur vantreystir minnst.

Traust almennings til Bjarna Benediktssonar, frá sept. 2009.
Traust almennings til Bjarna Benediktssonar, frá sept. 2009.
© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan má sjá þróunina á trausti almennings til Bjarna frá því að hann tók við sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Til að byrja með fjölgaði þeim hratt sem sögðust bera lítið traust til hans en þeim hefur þó farið fækkandi á ný. Í september 2009 sögðust 54% aðspurðra í sambærilegri könnun MMR bera lítið traust til Bjarna en í maí í fyrra sögðust 67% aðspurðra bera lítið traust til hans. Sem fyrr segir hefur þeim þó fækkað og nú segjast um 51% bera lítið traust til hans.

Í september 2009 sögðust rúmlega 18% aðspurðra treysta Bjarna en þeir eru nú rúmlega 19%.

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á trausti til Bjarna flokkað eftir stuðningi almennings við stjórnmálaflokka. Þar sést að traust til Bjarna meðal þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn hefur minnkað frá því að hann tók við sem formaður, úr 60% í 55%. Traust stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins til Bjarna hefur þó lítið breyst frá síðustu könnun sem verður að teljast athyglisvert í ljósi þeirra átaka sem verið hafa í flokknum síðustu vikur eftir að Bjarni lýsti yfir stuðningi við Icesave frumvarpið umdeilda.

Traust almennings til Bjarna Benediktssonar, flokkað eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, frá sept. 2009.
Traust almennings til Bjarna Benediktssonar, flokkað eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, frá sept. 2009.
© vb.is (vb.is)


Af öllum formönnum stærstu stjórnmálaflokkanna er Bjarni þó sá formaður sem minnst trausts nýtur meðal stuðningsmanna síns eigin flokks. Þannig mælist stuðningur við formann Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna á bilinu 68% - 82% meðal stuðningsmanna hvers flokks. Sem fyrr segir segjast aðeins um 55% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn bera traust til Bjarna.

Traust stuðningsmanna hinna stóru flokkana til Bjarna hefur þó aukist lítillega frá síðustu könnun (í maí 2010) eins  og sést á myndinni.