Kaupþing hefur fengið leyfi til að reka bankastarfsemi í Færeyjum. Í kjölfarið breytist dótturfélag Kaupþings í Færeyjum í útibú Kaupþings sem hefur leyfi til að skilgreina starfsemi sína sem bankastarfsemi. Að sögn Jónasar Sigurgeirssonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Kaupþings, mun þessi breyting hafa í för með sér aukna skilvirkni starfseminnar í Færeyjum. "Í megindráttum er breytingin sú að útbú Kaupþings í Færeyjum getur nú veitt lán beint til færeyskra fyrirtækja í stað þess að gera það í gegnum móðurfélagið á Íslandi áður", segir Jónas. Á undanförnum árum hefur Kaupþing lánað færeyskum fyrirtækjum alls 15 milljarða króna. Jónas segir að í kjölfar þessara breytinga færist þessar lánaveitingar undir hatt útibúsins í Færeyjum auk þess sem lánveitingar einfaldist til muna. "Þetta ætti að gera bankanum kleift að starfrækja fjölbreyttari bankaþjónustu í Færeyjum en áður. Þá ætti Kaupþing í Færeyjum að geta tekið ákvarðanir hraðar," segir Jónas. Kaupþing er nú þegar einn af stærstu þátttakendum á færeyskum fjármálamarkaði með um það bil 25% markaðshlutdeild. Kaupþing í Færeyjum mun aðallega starfa sem banki atvinulífsins og þjónusta færeysk fyrirtæki.

Færeyjar eru ekki nýr markaður fyrir Kaupþing en að sögn Jónasar hefur bankinn verið með starfsemi þar í landi síðan árið 2000 og meðal annars starfað í verðbréfamiðlun og lánastarfsemi. Aðspurður hvort að færeyski markaðurinn, þar sem aðeins búa tæp 50 þúsund manns, sé ekki of lítill fyrir Kaupþing banka segir Jónas svo ekki vera. "Kaupþing hefur verið með viðveru í Færeyjum undanfarin sex ár og starfsemin hefur gengið vel. Á meðan svo er munum við hafa áhuga á færeyska markaðinum," segir Jónas.

Kaupþing er eini erlendi bankinn sem starfar í Færeyjum en þar eru starfandi nokkrir færeyskir bankar og sparisjóðir. Stærstir þeirra er Föroya banki og Föroya Sparikassi. Haft er eftir Peter Holm sem gegnir stöðu forstjóra Kaupþings í Færeyjum að þrátt fyrir harða samkeppni telji hann að Kaupþing eigi erindi sem erfiði á færeyska fjármálamarkaðinum. Alls starfa tuttugu manns í útibúi Kaupþings í Færeyjum og reiknar Peter Holm með að sá fjöldi muni tvöfaldast innan skamms.