Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og stjórnarformaður Dohop, hefur ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík í komandi alþingiskosningum.

Í tilkynningu Frosta kemur fram að þátttakan í baráttunni gegn Icesave samningunum og gegn aðild Íslands að ESB hfi verið gefandi reynsla sem hefur vakið hjá honum áhuga á að taka frekari þátt í landsmálum.

„Í þessum verkefnum hef ég átt samleið með framsóknarfólki sem hefur hvatt mig til að íhuga framboð,“ segir Frosti í tilkynningunni.

„Á undanförnum misserum hefur Framsókn lagt fram skynsamlegar tillögur í lykilmálum og sýnt staðfestu í baráttu fyrir þeim. Framsóknarmenn hafa einnig sýnt í verki að flokkurinn er opinn fyrir nýjum hugmyndum og nýju fólki. Sú endurnýjun sem átt hefur sér stað innan Framsóknarflokksins er mikilvægur grunnur sem ég vil taka þátt í að byggja á.“

Eftirfarandi atriði koma fram í tilkynningunni frá Frosta:

Frosti er 49 ára Reykvíkingur. Hann er með viðskiptafræðipróf frá Háskóla Íslands og meistarapróf í rekstrarhagfræði (MBA) frá London Business School.

Frosti er meðstofnandi og stjórnarformaður hjá hugbúnaðarfyrirtækjunum Dohop og DataMarket, og stjórnarmaður í Arctica Finance. Hann var í fimm ár forstjóri Nýherja og stjórnarformaður CCP, en þar áður fjármálastjóri hjá Marel.

Hann er stjórnarmaður í Heimssýn, samtaka gegn aðild að ESB, og einnig meðlimur í Advice hópnum sem kynnti mótrök gegn Icesave III. Hann er talsmaður átaksins Betra peningakerfi sem kynnir leiðir til úrbóta í peningamálum.

Frosti er kvæntur Auði Sigurðardóttur umhverfisskipulagsfræðingi, þau eiga þrjú börn.