„Enn og aftur blasir við fullkomið skeytingarleysi um hag neytenda, sem eiga mikið undir því að stjórnvöld fari að dómum dómsvaldsins í þessu máli,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Fréttablaðið .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur Atvinnuvegaráðuneytið hafnað kröfu þriggja innflutningsfyrirtækja um endurgreiðslu útboðsgjalds vegna tollkvóta á búvörum. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann dóm 17. mars síðastliðinn að útboðsgjaldið væri ólögmætur skattur sem bryti í bága við stjórnarskrá.

Í framhaldinu sendi Félag atvinnurekenda ráðuneytinu erindi 23. mars og krafðist þess að innflutningsfyrirtækjum yrði endurgreitt útboðsgjald sem greitt hefði verið fyrirfram vegna innflutningsheimilda sem enn hefðu ekki verið nýttar. Fyrirtækin þrjú sem í hlut áttu, Hagar, Sælkeradreifing og Innnes, kröfðust hvert um sig endurgreiðslu útboðsgjaldsins vegna ónýttra innflutningsheimilda.

„Innflutningsfyrirtækin munu að sjálfsögðu halda áfram að leita réttar síns. Verslunin bíður eftir því að geta lækkað verð til neytenda. Það eina sem stendur í vegi fyrir því er þvermóðska embættismanna sem geta ekki sætt sig við að neytendur fái að njóta þess ábata sem fylgir frjálsum viðskiptum,“ segir Ólafur.