„Nái þessi niðurskurðarkrafa fram að ganga má hins vegar búast við að segja þurfi upp fimmta hverjum starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, eða um 35 manns í 22 stöðugildum. Þá munu ómæld viðbótarútgjöld leggjast á íbúa og fyrirtæki á svæðinu vegna sjúkraferðalaga til Reykjavíkur og vegna lengri fjarveru með tilheyrandi vinnutapi.” Þetta kemur fram í úttekt sem gerð hefur verið á efnahags- og samfélagslegum áhrifum fyrirhugaðs niðurskurðar á Heilbrigðisstofnun og kynnt er á fundi grasrótarsamtakanna Heimavarnarliðsins sem hófst í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafriði núna klukkan 18:00.

Það voru þau Dóra Hlín Gísladóttir verkfræðingur og Kristinn Hermannsson hagfræðingur sem unnu skýrsluna fyrir Heimavarnarliðið, sem eru grasrótarsamtök sem vilja standa vörð um heilbrigðisþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum. Samtökin voru „stofnuð“ á súpufundi á Hótel Ísafirði örfáum dögum eftir að niðurskurðarhugmyndirnar komu fram en í þeim er algjör þverskurður af samfélaginu vestra; skrifstofufólk, verkafólk, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækis, eigandi barnafataverslunar og rannsóknarlögreglumaður, svo einhverjir séu nefndir.

Í skýrslunni kemur fram að verði fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða skornar niður um 185 milljónir króna eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 mun það varlega áætlað skila innan við 30 milljóna króna raunverulegum sparnaði fyrir ríkissjóð.  Stór hluti áætlaðs sparnaðar hverfur með auknum flutningskostnaði.

Eykur búsetukostnað

Skýrsluhöfundar segja það ámælisvert að leggja til jafn róttæka breytingu á heilbrigðisþjónustu heils landssvæðis án þess að gerð sé tilraun til að meta afleiðingarnar sem hæglega geti orðið mun afdrifaríkari en fyrirhugaður sparnaður réttlætir.  Bent er á að niðurskurður heilbrigðisþjónustunnar auki kostnað við búsetu á svæðinu auk þess sem meiri fjarlægð frá sérhæfðri læknisþjónustu bjóði þeirri hættu heim að sjúklingar verði fyrir heilsutjóni af því að komast ekki undir læknishendur í tæka tíð, sem aftur hafi í för með sér mikinn samfélagslegan kostnað.

Í skýrslunni kemur fram að á hverju ári eru 600-800 sjúklingar lagðir inn á sjúkrahúsið á Ísafirði og verði starfsemi sjúkra- og hjúkrunarsviða Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða skert eins og tillagan gerir ráð fyrir megi reikna með að flytja þurfi 400-700 þessara sjúklinga suður til aðhlynningar.  Áætlað er að aukin kostnaður ríkisins vegna þessara sjúkraflutninga geti numið tæpum 60 milljónum króna á ári.

Skýrsluhöfundar segja vandséð að það geti leitt til nettósparnaðar að leggja niður hjúkrunarrými í einum landshluta til þess eins að bæta við nýjum hjúkrunarrýmum annars staðar.  Ekki sé hægt að gefa sér fyrirfram að mikill sparnaður náist með flutningi starfseminnar suður, jafnvel þó gengið sé út frá því að einungis þurfi 50% af þeim launakostnaði sem skorinn er niður til að veita sjúklingunum sömu þjónustu í Reykjavík. Tilflutningur á opinberum störfum frá Vestfjörðum til höfuðborgarsvæðisins muni hins vegar fela í sér róttæka skerðingu á þjónustu á svæðinu með óafturkræfum afleiðingum.