Í breytingartillögum þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd Alþingis við frumvarp fjármálaráðherra um stofnun eignaumsýslufélags er lagt til að hnykkt verði á því að þegar eignarhlutir í atvinnufyrirtækjum sem félagið hafi eignast verði seldir skuli sérstaklega horft til þess að koma fyrirtækjunum í almenningseign.

Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd leggja til að frumvarpið um eignaumsýslufélagið verði samþykkt með þessari breytingu sem og fáeinum öðrum. Þeir hafa afgreitt málið úr nefnd.

Gert er ráð fyrir annarri umræðu um frumvarpið á næstu dögum.

Leggjast gegn frumvarpinu

Með frumvarpinu er lagt til að opinberu hlutafélagi verði komið á fót tímabundið í þeim tilgangi að kaupa þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki sem vegna rekstrarerfiðleika eru komin í eigu fjármálastofnana að hluta til eða öllu leyti.

Félaginu er ætlað að koma hlutaðeigandi fyrirtæki í rekstrarhæft ástand og selja að því búnu eignarhlut sinn í því um leið og markaðsaðstæður leyfa.

Frumvarpið byggist á tillögum í fyrstu starfsáætlun samræmingarnefndar um endurreisn bankakerfisins sem kynnt var af Svíanum Mats Josefson.

Fram kemur í nefndaráliti að að Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins og Landssamband íslenskra útvegsmanna leggjast gegn frumvarpinu. Þessir aðilar  telja meðal annars að frumvarpið samræmist ekki stefnu í yfirlýsingu fyrri ríkisstjórnar frá 2. desember 2008 um aðgerðir í þágu fyrirtækja.