Ekkert fékkst upp í tæplega 1,9 milljarða króna kröfur í þrotabú félagsins Tírufjárfestingar. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 2. desember árið 2010 og lauk skiptum á því 3. desember síðastliðinn. Tírufjárfestingar áttu 36% hlut í Pennanum áður en kröfuhafar tóku reksturinn yfir í mars árið 2009. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu, að heildarfjárhæð lýstra krafna hafi numið 1.893.889.352 krónum eftir að búið var að ganga frá fullnustu fasteignanna. Forgangskröfur námu 10,2 milljónum króna, almennar kröfur voru 1.883.545.132 krónur og eftirstæðar kröfur voru upp á 161.167 krónur.

Skulduðu 11 milljarða við bankahrun

Eigendur Tírufjárfestinga keyptu Pennan af fyrri eiganda, Gunnari Dungal, í júní árið 2005. Fram kemur í  Rannsóknarskýrslu Alþingis að skuldbindingar gagnvart Kaupþingi hafi í október árið 2008 numið 11,1 milljarði króna. Fyrirtækið átti þegar mest lét verslunina Saltfélagið og kaffihúsakeðjuna Te og Kaffi. Þá átti Penninn helmingshlut í Habitat á Íslandi, meirihluta í húsgagnafyrirtækinu Coppa í Lettlandi, rekstrarvörukeðjuna Daily Service í Eystrasaltsríkjunum og kaffiframleiðandann Melna Kafija í Lettlandi. Eignarhaldið var skráð hér á landi og í Lúxemborg. Fram kemur í Rannsóknarskýrslunni að félög Pennans hafi virst í mikilli fjárþörf undir lokin og ekki haft neina burði til að standa við skuldbindingar sínar við Kaupþing og Sparisjóðabankann. Á endanum tók Nýja Kaupþing eignarhaldið yfir í mars árið 2009.

Tíufjárfestingar hafa ekki skilað uppgjöri um árabil. Það eina sem liggur fyrir er uppgjörið fyrir árið 2007. Þá hagnaðist félagið um rúmar 90 milljónir króna. Eignir námu 689 milljónum króna, bókfært eigið fé nam tæpum 101 milljón króna. Skuldir, sem voru að stórum hluta í erlendri mynt, voru á sama tíma rúmar 588 milljónir króna.