Icesave-málið er ömurlegt mál á alla lund, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi í dag.

Þar svaraði hann fyrirspurn Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns Vinstri grænna.

„Atriði eins og háttvirtur þingmaður [Ögmundur Jónasson] kallaði réttilega Icesave-hneykslið má ekki koma upp aftur í nokkurri mynd. Þetta verkefni sem við í ríkisstjórn og fólk á okkar vegum eru núna  að eyða dýrmætum tíma í að reyna að greiða úr, er auðvitað ömurlegt mál á alla lund," sagði Geir.

Geir sagði enn fremur að eitt og annað í okkar regluverki hefði, eftir á að hyggja, ekki reynst vel. Þá hefðum við brennt okkur illilega á krosseignahaldi og fleiri atriðum. „Það þarf að koma í veg fyrir að lagaákvæði um þetta og evrópskar reglur verði misnotaðar hér af öflum og aðilum sem ekki hafa hagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi."

Ögmundur sagði að andvaraleysi og fyrirhyggjuleysi fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar væri algjört.