Kaupum Actavis Group á Higia AD, einu stærsta lyfjadreifingarfyrirtæki í Búlgaríu, er lokið og er nú að fullu í eigu félagsins segir í tilkynningu þess til Kauphallarinnar. Öll tilskilin leyfi, þ.á m. frá búlgörskum samkeppnisyfirvöldum, hafa verið samþykkt. Kaupverð er trúnaðarmál en kaupin eru fjármögnuð með langtímaláni.

Í tilkynningunni kemur fram að gert er ráð fyrir að samlegðaráhrif kaupanna skili umtalsverðri tekjuaukningu fyrir Actavis á þessum mikilvæga markaði félagsins. Búlgaría er annar stærsti markaður samstæðunnar en sala fyrstu níu mánuði þessa árs nam 46 milljónum evra, sem er 12% af heildarsölu samstæðunnar. Higia, sem hefur góða markaðsstöðu á búlgarska markaðnum og selur lyf til yfir 2.000 apóteka, sérhæfir sig í dreifingu lyfja til apóteka og sjúkrastofnana.

Reiknað er með að samruninn komi inn í reikningsskil samstæðunnar frá 1.desember 2005. Jafnframt er búist við að tekjur Higia verði á bilinu 90-100 milljónir evra á árinu 2006.

?Með kaupunum styrkir Actavis stöðu sína á búlgarska lyfjamarkaðnum enn frekar og góð tækifæri skapast til áframhaldandi vaxtar. Þá munu kaupin styrkja samkeppnisstöðu félagsins í Búlgaríu og gagnvart öðrum löndum innan Evrópusambandsins, segir Róbert Wessman forstjóri Actavis í tilkynningu félagsins.