Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi Blush, hefur verið kjörin í stjórn Ölgerðarinnar. Þetta kemur fram í niðurstöðum aðalfundar félagsins sem fór fram fyrr í dag. Magnús Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova og núverandi stjórnarmaður í félaginu, hlaut einnig brautargengi í stjórn Ölgerðarinnar.

Auk þeirra voru Rannveig Eir Einarsdóttir, Hermann Már Þórisson og Októ Einarsson kjörin í stjórnina. Októ verður formaður stjórnarinnar og Hermann Már varaformaður.

Í samtali við Viðskiptablaðið í gær sagði Gerður að hún eigi ekki hlut í Ölgerðinni en hafi verið hvött til að gefa kost á sér og hún telji sig passa mjög vel í það starf.

„Ég hef víðtæka þekkingu og reynslu af markaðsstörfum, vöruþróun og uppbyggingu vörumerkja sem mun nýtast vel í þessu starfi, ásamt því að hafa rekið fyrirtæki síðustu 12 árin með góðum árangri,“ sagði hún.

Gerður stofnaði Blush árið 2011 og aðeins áratug síðar var fyrirtækið valið Besta íslenska Vörumerkið tvö ár í röð. Gerður var meðal annars valin Markaðsmanneskja ársins 2021.