Gistinætur á hótelum landsins voru 123.800 í janúar síðastliðnum, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Þetta er 36% aukning frá sama mánuði í fyrra þegar gistinæturnar voru 91.017 talsins. Ef litið er lengra aftur þá voru gistinætur á hótelum landsins 286% fleiri nú en í janúar árið 2004.

Gistinætur erlendra gesta voru 84% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum. Þær voru rúmlega 104 þúsund og fjölgaði um 39% á milli ára. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði á sama tíma um 22% og voru þær tæplega 19.600 talsins.

Á tíu ára tímabili hefur gistinóttum Íslendinga fjölgað um 10 þúsund á síðastliðnum tíu árum eða að jafnaði um þúsund á ári frá árinu 2004. Þetta jafngildir rétt rúmlega 102% aukningu á árabilinu. Í janúar árið 2004 voru gistinætur útlendinga 22.376 talsins. Þeim hefur fjölgað um rúm 360% á sama tíma.