Glitnir hefur stofnað fjárfestingafélag í Noregi á sviði fasteigna, ásamt hópi fjárfesta frá Íslandi, meðal annars fjárfestingafélaginu Saxbygg. Aðrir íslenskir fjárfestar eiga smærri hlut. Tilgangur félagsins er að fjárfesta í fasteignum í Noregi og á Norðurlöndunum en það mun ekki koma að rekstri fasteignanna og því ekki fasteignafélag í þeim skilningi. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Union Group, sem Glitnir á 50,1% hlut í, mun sjá um rekstur félagsins en Union Group er sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki með áherslu á fjármálaráðgjöf og fjárfestingabankaþjónustu varðandi fasteignaviðskipti banka. Eigið fé hins nýja félags er ríflega fimm milljarðar króna og fjárfestingageta þess því milli tuttugu og þrjátíu milljarðar króna. Félagið er þegar tekið til starfa og er þegar unnið að fyrstu fjárfestingu þess í Noregi.

Að sögn Björns Inga Sveinssonar, framkvæmdastjóra Saxbygg, er hér um að ræða spennandi tækifæri enda góð vaxtarskilyrði á þessum markaði. Saxbygg var stofnað 2004 og er eigið fé félagsins um 6 milljarðar króna en það er með fasteignarekstur á Íslandi, í Englandi og nú í Noregi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag