Rætt verður innan Glitnis hvort félagið muni grípa til aðgerða eftir umfjöllun fjölmiðla um Ingibjörgu Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla, og Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmann hennar, byggða á Panama-skjölunum svokölluðu. Í samtali við Fréttablaðið segir Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis, enga ákvörðun þó hafa verið tekna og vildi ekki tjá sig um málið.

Guru Invest, skráð í Panama og í eigu Ingibjargar, greiddi 2,4 milljarða króna inn á 3,3 milljarða króna skuld félaganna 101 Chalet og Gaums. Jón Ásgeir átti 41 prósents hlut í Gaumi en Ingibjörg var ekki hluthafi í því. Samkvæmt umfjöllun Kjarnans, Stundarinnar og Reykjavík Media afskrifaði Glitnir því 900 milljónir af skuldum félaganna.