Ekki virðist vera að birta mikið til í rekstri fyrirtækja, ef marka má könnun sem Deloitte gerði meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins í október. Sé horft til næstu tólf mánaða gera fyrirtæki ráð fyrir að tekjur muni aukast lítillega en flest fyrirtæki gera ekki ráð fyrir fjölgun starfsmanna.

Fjármálastjórar telja almennt að fjárhagslegar horfur hafi verið svipaðar á árinu 2014 og í fyrra og yfirgnæfandi meirihluti þeirra telur ekki góðan tíma nú til auka áhættu í efnahagsreikningi fyrirtækja. Spurðir um áhættu í rekstrarumhverfi fyrirtækja telja fjármálastjórar að fjárhagsleg áhætta hafi staðið í stað eða aukist nokkuð á síðustu tólf mánuðum. Vaxtatækifæri hafa ekki aukist.

Ráðgjafarsvið Deloitte gerði könnunina í október, eins og áður segir, en könnunin var sett á laggirnar að fyrirmynd Deloitte á alþjóðavísu og tilgangur hennar er að sýna mat fjármálastjóra á stöðu fyrirtækja og efnahagsumhverfisins. Þessi könnun er gerð tvisvar á ári og var fyrsta könnunin gerð í apríl á þessu ári. Taka ber fram að könnunin var gerð fyrir vaxtalækkun Seðlabankans .

Nokkuð bjartsýnir á hagvöxt

Á næstu tólf mánuðum ætla flest fyrirtæki að leggja áherslu á lækkun kostnaðar og innri vöxt. Einnig ætla mörg fyrirtæki að lækka skuldir og kynna nýjar vörur. Fjármálastjórar gera ekki ráð fyrir að auka skuldsetningu á næstu tólf mánuðum og telja flestir mjög ólíklegt að fyrirtækið muni gefa út nýtt hlutafé.

Meirihluti fjármálastjóra er nokkuð bjartsýnn á hagvaxtarhorfur á Íslandi til næstu tveggja ára og telur að hagvöxtur muni aukast, en rúmlega þriðjungur fjármálastjóra telur að hagvöxtur muni standa í stað. Spurt var um mat fjármálastjóra á hlutabréfamarkaði og spáðu flestir að Úrvalsvísitala Kauphallarinnar myndi hækka nokkuð á næstu 6 mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .