Tap Uber á fyrri helming síðasta árs jókst og var um nærri milljarði Bandaríkjadala, eða tæpm 130 milljörðum króna. Þetta er 50% aukning á því sem Uber tapaði á öllu árinu 2014. Samkvæmt áætlunum mun tap fyrirtækisins nema um 2,5 milljörðum dala.

Aukið tap er að miklu leyti rakið til markaðssóknar í nýjum mörkuðum, s.s. Kína og á Indlandi. Uber er að tapa peningum til að skapa sér markaðshlutdeild á þessum nýju mörkuðum, en í sumum þeirra eru sterkir aðilar með stóra markaðshlutdeild.

Á sama tíma voru tekjur félagsins um 663 milljónir dala, eða um 86 milljarðar króna. Tekjur félagsins jukust um 30,8% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs síðasta árs og fyrirtækið gerir ráð fyrir því að árstekjur muni þrefaldast á næstu árum.

Fyrirtækið býst við því að á næstu misserum muni margar borgir í þróaðri ríkjum byrja að skila auknum hagnaði, en félagið býst við milljörðum dala í tekjur á næstu árum. Samkvæmt fjárhagsáætlunum fyrirtækisins mun fyrirtækið fá um 14 milljarða dala í tekjur á næstu fjórum árum frá þróaðri löndum.

Þrátt fyrir að fyrirtækið sé að tapa miklum fjárhæðum þá á það ennþá verulega varasjóði. Um mitt síðasta ár átti félagið ennþá 4,15 milljarða dala í reiðufé í varasjóðum félagsins.

The Information greinir frá.