GSM-væðingu hringvegarins lauk í dag þegar Síminn hf. kveikti á nýjum sendi í Norðurárdal. Síminn og Fjarskiptasjóður skrifuðu undir samkomulag á síðasta ári um að ljúka við GSM-væðingu hringvegarins þar sem nokkrir kaflar hafa verið án farsímasambands, sá lengsti um 80 km á Möðrudalsöræfum.

„Við höfum bætt farsímasamband á um 500 km vegalengd á þessum vegum öllum,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans í tilkynningu frá Símanum. „Þá settum við einnig upp sendi á Flatey í Breiðafirði, en hann nær til nærri helmings vegarins um Barðaströnd þar sem áður hefur ekki verið samband. Töluvert hefur skort á að samband náist á þjóðvegum og á helstu fjallvegum og því er það okkur mikil ánægja að ljúka þessu verki og gefa landsmönnum öllum færi á að ferðast hringinn í kring um landið í góðu sambandi.“

Sævar Freyr segir framkvæmdina sjálfa hafa gengið vel fyrir sig en eins og gefur að skilja er ekki þrautalaust að koma á sambandi á strjálbýlum svæðum. „Oft er vegalaust og torfært að þeim svæðum sem best er að koma fyrir sendum og þá spila veður og vindar einnig inn í slíkar framkvæmdir. Því hafa ýmis tæki og tól reynst starfsmönnum vel, allt frá fjórhjólum og snjósleðum upp í þyrlur. Ef allt annað bregst þá eru það fæturnir tveir sem reynast manni oft best!“ Sævar segir uppsetningarnar þó hafa gengið mjög vel og mega landsmenn allir sem og gestir njóta þess að vera í góðu sambandi - hringinn í kringum landið.