Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út síðastliðinn fimmtudag. Þar er hann meðal annars spurður um umræðuna hérlendis um Ísrael og Palestínu þar sem mikið hefur verið rætt um beitingu viðskiptaþvingana við Ísrael í táknrænu mótmælaskyni.

Finnst þér einhvern tímann vera kominn tímapunktur þar sem ríki ganga það langt að Ísland ætti að senda skilaboð í alþjóðasamfélagið t.d. með beitingu viðskiptaþvingana eða einhverju öðru?

„Ég hef sagt, eins og með beitingu viðskiptaþvingana, að það yrði ekkert tekið eftir því ef Ísland myndi upp á sitt einsdæmi taka upp á því að beita viðskiptaþvingunum. Það eru býsna margir sem myndu líta á það sem einhvers konar lítið hróp í eyðimörkinni. Við erum hins vegar alveg ófeimin við að taka umræðuna með öðrum ríkjum.“

Gunnar Bragi segir að ef önnur ríki telji ástæðu til að taka ákvörðun um slíkt þá hafi verið lagst yfir hvort það samrýmist hagsmunum Íslendinga að taka þátt í slíku.

„Ég tel til dæmis ekki rétt á þessum tímapunkti, úr því þú nefndir Ísrael og ég hef fengið fyrirspurnir um það á Alþingi, að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Ég hef aldrei litið svo á að það sé neinum til góðs að einangra einhvern – að eiga ekki samtal við hann. Ég held til dæmis að leiðin út úr Úkraínuvandanum sé samtal við Rússland um lausnina.“

Gunnar Bragi er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .