Hlutabréf hækkuðu á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag eftir að Ben Bernanke, bankastjóri bandaríska seðlabankans, lýsti því yfir að enn væri ástæða til að nýta peningastefnu bankans til þess að skapa fleiri störf. Með þeim orðum átti Bernanke við að stýrivextir yrðu enn með lægsta móti vestanhafs.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 1,6%, Dow Jones hækkaði um 1,2% og S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,3% og hefur nú ekki verið hærri síðan í maí 2008 að því er fram kemur á vef Bloomberg fréttaveitunnar.

Í Evrópu varð einnig hækkun á helstu mörkuðum í dag af sömu ástæðu auk þess sem væntingavísitala þýskra fjárfesta, sem birt var í dag, sýndi fram á nokkra bjartsýni á aukin vöxt hlutabréfamarkaða í Evrópu á næstu misserum.

FTSEurofirst 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu fyrirtækin í Evrópu, hækkaði í dag um 0,9%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,8%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan einnig um 0,8% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 1,2%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,7% og í Zurich hækkaði SMI vísitalan einnig um 0,.7%.

Þá hækkuðu hlutabréfavísitölu einnig á Norðurlöndunum. Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 1,9% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,4%.