Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að krafa Fjármálaeftirlitsins í EA fjárfestingafélag við slit félagsins sé forgangskrafa. Það er að henni skuli skipað í réttindaröð samkvæmt 110. grein gjaldþrotalaga. Krafa Fjármálaeftirlitsins var gerð vegna greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

EA fjárfestingafélag, sem áður hét MP banki, hafði samþykkt kröfu Fjármálaeftirlitsins en talið hana eiga að njóta rétthæðar samkvæmt 113. grein gjaldþrotalaga. Ágreiningi um rétthæð kröfunnar var vísað til úrlausnar héraðsdóms sem komst að sömu niðurstöðu.

Hæstiréttur skipaði kröfunni auk dráttarvaxta í réttindaröð samkvæmt 110, grein laga á þeim grundvelli að opinber gjöld, sem lögð væru á þrotabú vegna starfsemi þess eftir upphaf gjaldþrotaskipta, teldust til skiptakostnaðar.