Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga árið 2014 nam 247 milljónum króna samanborið við 715 milljónir króna árið 2013. Þetta kemur fram í ársuppgjöri sjóðsins sem birt var í vikunni.

Heildareignir sjóðsins í lok ársins voru 76.782 milljónir króna samanborið við 77.095 milljónir króna í árslok 2013. Útlán sjóðsins námu 71.347 milljónum króna í lok ársins samanborið við 69.316 í árslok 2013. Þá nam eigið fé 15.666 milljónum króna á móti 15.777 milljónum króna í árslok 2013 og hefur lækkað um 0,7% á árinu.

Vegið eiginfjárhlutfall er 68% en var 67% í árslok 2013. Útborguð langtímalán á árinu námu 8.439 milljónum króna samanborið við 14.066 milljónir króna árið áður. Útlán ársins 2014 eru yfir meðallagi en sú mikla aukning sem varð 2013 skýrðist einkum af tveimur stórum lánveitingum, samtals að fjárhæð 7.800 milljónir króna.