Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur með úrskurði staðfest ákvörðun Neytendastofu um að bílumboðinu Heklu sé óheimilt að auglýsa Volkswagen bifreiðar sem „grænar" þó greitt sé fyrir kolefnisjöfnun.

Neytendastofa taldi auglýsingar Heklu á grænum bílum af umræddri tegund væru villandi og ekki í samræmi við ákvæði laga um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins.

Í auglýsingunni sagði: “Þeir eru allir grænir! – Nýir bílar frá Volkswagen eru kolefnisjafnaðir.”

Ekki kom fram að í því fælist einungis kolefnisjöfnun í eitt ár fyrir bifreið af þessari tegund, miðað við meðalakstur.

Telur áfrýjunarnefnd neytendamála að bifreiðar knúnar eldsneyti gætu ekki verið grænar í þeim skilningi sem þær birtust í auglýsingum Heklu. Væru auglýsingarnar því í blóra við lög sem mæla fyrir um að fullyrðingar í auglýsingum mega ekki vera rangar, ófullnægjandi eða villandi.