*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 15. desember 2016 09:36

Helga Valfells stofnar nýjan sjóð

Framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Helga Valfells, stofnar ásamt Heklu Arnardóttur og Jenný Ruth Hrafnsdóttur nýjan fjárfestingarsjóð.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins auk tveggja annarra sem starfa í fjárstýringu, Hekla Arnardóttir og Jenný Ruth Hrafnsdóttir, hafa tilkynnt um að þau muni láta af störfum hjá fyrirtækinu.

Hafa þær stofnað eigin fjárfestingarsjóð sem ber nafnið Crowberry Capital sem þær safna nú fé fyrir, en sjóðurinn mun fjárfesta í ungum vaxtafyrirtækjum og starfa í góðu samstarfi við Nýsköpunarsjóð sem og aðra fjárfesta.

„Nú er þörf fyrir fjárfesta sem geta komið inn á fyrstu stigum og við trúum því að okkar reynsla á þessu sviði í langan tíma muni hjálpa okkur í þessu verkefni,“ sagði Helga Valfells framkvæmdastjóri í yfirlýsingu.

Iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið ásamt NSA Ventures hafa á síðustu árum rætt hvernig hægt sé að auka fjármagn til fjárfestinga við nýsköpunarverkefni.

NSA Ventures verður sjóðasjóður

Ákveðið var að þróa Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins í það að verða sjóður fyrir aðra fjárfestingarsjóði, það er sjóður sem fjárfesti í öðrum sjóðum, í stað þess að fjárfesta beint í frumkvöðlafyrirtækjum.

„Nýsköpunarsjóður  atvinnulífsins er framtakssjóður í eigu ríkisins.  Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.

„Sjóðurinn hefur frá stofnun fjárfest í um 150 sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og rúmlega 30 fyrirtæki eru í eignasafni sjóðsins í dag. Auk þess hefur sjóðurinn fjárfest í 3 framtakssjóðum með áherslu á nýsköpun.“

Ætla að safna fimm milljörðum króna

Crowberry Capital hefur ekki lokið fjármögnun, en samkvæmt Helgu eru þeir komnir með nokkur loforð um fjármögnun en þær stefna að því að safna fimm milljörðum íslenskra króna.

Mun sjóðurinn einblína á minni fjárfestingar sem komi fyrr í uppbyggingarferli fyrirtækjanna, fljótlega eftir að fyrirtæki fá styrki frá Tækniþróunarsjóði.