Þann fyrsta október tók gildi lagabreyting um sölu á litaðri dísilolíu sem ætluð er til notkunar á vinnuvélar og sérskilgreind ökutæki. Á nú enginn að geta keypt litaða olíu nema hafa til þess sérstakt viðskiptakort sem sannar notkunarheimild á slíkri olíu.

Er um að ræða breytingu á lögum nr. 87 frá 2004 um olíugjald og kílómetragjald. Eru takmarkanir á sölu litaðrar olíu í sjálfsafgreiðsludælum settar inn í 1. grein laganna en þar segir: „Gjaldskyldum aðilum skv. 1. mgr. 3. gr. er óheimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðsludælum nema slík viðskipti eigi sér stað með sérstöku viðskiptakorti gjaldskylds aðila."

Þá eru sektarákvæði laganna hert og sektarfjárhæðir hækkaðar um 50%. Ef skráningarskyld ökutæki (önnur en tilteknar vinnuvélar) taka litaða olíu þurfa eigendur þeirra að borga sektir miðað við þyng ökutækja. Fyrir ökutæki sem er að heildarþyngd frá 0 - 3,5 tonn þarf að greiða 300.000 krónur í sekt. Í þeim flokki eru flestallir dísilknúnir fólksbílar.

Fyrir Ökutæki frá 3,5 - 10 tonn þarf að greiða 750.000 kr. og fyrir ökutæki sem eru frá 10 - 15 tonnum þarf að greiða 1.125.000 krónu sekt. Fyrir ökutæki frá 15 - 20 tonn að þyngd þarf að greiða 1.500.000 krónur í sekt og 1.875.000 kr. fyrir ökutæki yfir 20 tonn að heildarþyngd.

Töluverð brögð munu vera af því að fólk hafi keypt litaða olíu á einkabíla sína á olíudælum samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum bensínstöðva. Eftirlitsskyldan hefur þó ekki verið í þeirra höndum heldur í höndum Vegagerðarinnar. Eftir breytinguna ætti að vera hægt að rekja það ef keypt er olía út á kort sem ekki er með heimild til kaupa á litaðri olíu.