Ásgeir Margeirsson tók við sem forstjóri HS Orku nú um áramótin. Ásgeir er enginn nýgræðingur þegar kemur að orkumálum. Hann hefur setið í stjórn HS Orku um árabil, verið forstjóri Magma Energy og var áður forstjóri Geysis Green Engergy. Ásgeir er fæddur í Keflavík árið 1961. Hann lauk C.Sc. gráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 1985 og framhaldsprófi frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1989. Auk starfa sinna hjá HS Orku situr hann í stjórn Bláa lónsins og í stjórn menntastofnunarinnar Keilis.

Hann hefur starfað að orkumálum í um það bil tvo áratugi. „Það eru nítján ár í vor síðan ég byrjaði hjá Jarðborunum. Það var vorið 1995,“ segir hann. Fyrir þann tíma hafði hann reyndar unnið um stutt skeið við framkvæmdir við vatnsaflsvirkjanir, þannig að heildartíminn sem hann hefur unnið að orkumálum er meira en 20 ár.

Helsta áhugamál Ásgeirs er hestamennska en fjölskylda hans á vel á þriðja tug hesta. „Þetta er eiginlega ekki áhugamál þetta er lífstíll. Mestur parturinn af fjölskyldunni er svolítið djúpt sokkinn í bakteríuna,“ segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .