Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur sent frá sér áréttingu vegna umræðu um skattlagningu fæðispeninga og dagpeninga sjómanna.

Heildarkostnaður útgerðar 2,3 milljarðar

Segja þeir heildarkostnað útgerðarinnar vegna greiðslu fæðispeninga vera um 2,3 milljarðar króna, samkvæmt lauslegu mati, en áætlað tekjutap ríkisins af því yrði 730 milljónir króna ef þeir væru undanþegnir skatti.

Því til viðbótar myndu sveitarfélögin tapa um 330 milljónum króna í útsvarstekjum. Fæðispeningarnir, sem eru mismiklir eftir stærð skipa, eru frádráttarbær rekstrarkostnaður hjá útgerðinni, en af þeim er greitt tryggingargjald og iðgjald í lífeyrissjóði.

Launþegar þurfi almennt að greiða fyrir mat

Hins vegar þurfa sjómenn að greiða tekjuskatt og úsvar af peningunum, eins og ráðuneytið segir að gildi almennt um aðra launþega sem þurfi að borga fyrir fæði sem vinnuveitendur tryggja þeim með skattlögðum tekjum.

Áréttingin kemur í kjölfar ummæla Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra um að hún væri á móti því að niðurgreiða laun fyrir útgerðina.

Segir ekki um niðurgreiðslu launa að ræða

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði að sjómenn væru ekki að biðja um ölmusu með kröfu um skattfrjálsa fæðispeninga.

Væru þeir einungis að biðja um að fá að sitja við sama borð og allt launafólk í landinu sem þurfa að starfa fjarri heimili sínu, að því er segir í frétt Morgunblaðsins .

Formaður Sjómannasambandsins, Valmundur Valmundsson, vísaði því á bug að um sértæka aðgerð væri að ræða. „Það er ekki verið að niðurgreiða nein laun," sagði Valmundur.