*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 10. janúar 2020 14:14

Hjón og börn teljist tengd

Verkefnastjórn um fiskveiðiauðlindina hefur skilað af sér tillögum um breytingu á skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Hjón, sambúðarfólk og afkomendur í beinan legg munu teljast tengdir aðilar í skilningi laga um stjórn á fiskveiðum. Þetta er meðal þess sem felst í tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í fyrra.

Verkefnastjórnin var skipuð í kjölfar skýrslu ríkisendurskoðanda um eftirlit í sjávarútvegi. Verkefni nefndarinnar var umfangsmeira en þetta en í kjölfar umfjöllunar um málefni Samherja við strendur Afríku fól ráðherra henni að skila þessum þætti málsins fyrr af sér en ella. Tillögur í öðrum þáttum yfirferðarinnar liggja ekki fyrir.

Auk fyrrgreindrar breytingar eru lagðar til breytingar á núgildandi reglum um hvaða aðilar teljast tengdir aðilar. Til að mynda er skýrt með hvaða hætti aðili telst fara með raunveruleg yfirráð í öðrum aðila.

Þá er einnig lagt til að ef samanlögð aflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila fer yfir 6% af heildaraflahlutdeild skuli bera tilkynna Fiskistofu samruna lögaðila sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild, kaup á eignarhlut í slíkum lögaðilum og kaup, kaupleigu eða leigu á fiskiskipi með hlutdeild áður en viðskiptin koma til framkvæmda.

Til að teljast tengdir aðilar hingað til hefur verið talið nauðsynlegt að sami einstaklingur fari með yfir helmingshlut í tveimur mismunandi útgerðum. Ekki er gert ráð fyrir því að 50% þröskuldurinn verði lækkaður en þó á það bent í samantektinni að á ýmsum sviðum skattaréttar sé miðað við 25% til að félög teljist tengd.

Tillögurnar má skoða í heild sinni hér.