Hlutabréf hækkuðu í Asíu í morgun, annan daginn í röð.

Líkt og í Bandaríkjunum í gærkvöldi voru það helst bankar og orkufyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins. Eitthvað virðist ætla að þokast til að á lánamörkuðum að sögn Bloomberg fréttaveitunnar og olía heldur áfram að hækka í verði sem hefur áhrif á orkufyrirtækin.

MSCI vísitalan hækkaði um 1,1% í morgun og hefur nú hækkað um 9,3% frá miðjum mars.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 1,2%, í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 1,3 og í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 1,1%.

Í Hong Kong og Kína varð hins vegar örlítil lækkun á mörkuðum eftir að greiningaaðilar spáðu minnkandi hagvexti í landinu en Hang Seng vísitalan lækkaði um 0,1%.