Bandaríska raftækjaverslunarkeðjan Gamestop skilaði óvænt hagnaði á fjórða ársfjórðungi fjárhagsársins 2022, sem lauk 28. janúar. Hlutabréfaverð Gamestop, sem birti uppgjör eftir lokun markaða í gær, hefur hækkað um meira en 40% í viðskiptum dagsins.

Hagnaður Gamestop á fjórðungnum nam 48,2 milljónum dala, eða sem nemur tæplega 7 milljörðum króna. Um er að ræða í fyrsta sinn í tvö ár sem félagið skilar hagnaði. Til samanburðar ‏tapaði félagið 147,5 milljónum dala á sama tímabili ári áður.

Sala Gamestop dróst saman um 1,2% á milli ára og nam 2,23 milljörðum dala á fjórðungnum. Það var ‏yfir væntingum greiningaraðila sem áttu von á að tekjur félagsins yrðu nær 2,18 milljörðum dala, samkvæmt frétt Bloomberg.

„Rekstur Gamestop er mun heilbrigðari í dag heldur en í ársbyrjun 2021,“ sagði forstjórinn Matt Furlong, á uppgjörsfundi.

Hlutabréf Gamestop voru vinsæl með dagkaupmanna á spjallborðinu r/wallstreetbets á spjallsíðunni Reddit í Covid-faraldrinum. Þannig margfaldaðist gengi hlutabréfa félagsins ‏þrátt fyrir að ekki hafi endilega verið tilefni fyrir ‏því hvað rekstrarniðurstöðu félagsins varðar.