Eftir að tilkynnt var um gjaldþrot elstu ferðaskrifstofu heims, Thomas Cook sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun starfaði einnig sem flugfélag, hefur gengi bréfa nokkurra félaga í sama geira hækkað töluvert. Vænta markaðsaðilar að með gjaldþrotinu hafi framboð í ferðaþjónustugeiranum dregist saman sem hjálpi keppinautum félagsins að því er Reuters segir frá.

Þannig hefur gengi TUI, easyJet og Ryanair hækkað í viðskiptum dagsins, sem og vísitala ferðaþjónustu- og afþreyingarfyrirtækja PTSE 350 vísitölunnar í kauphöllinni í London. Hefur þessi sértæka vísitala hækkað um 0,26% í 9.815,51 stig sem er það hæsta sem hún hefur náð í nærri heilt ár, meðan FTSE 350 vísitalan sjálf hefur lækkað um 0,42%.

Þegar þetta er skrifað hefur hækkun bréfa ferðaþjónusturisans TUI numið 6,86%, í 10,20 evrur á hlut. Hækkun Easy Jet hefur numið 3,55%, í 1.095 pund hvert bréf en hækkun Ryanair er 1,10% í 10,07 evrur.