Hlutabréf lækkuðu um 1,4% í Japan eftir að birtar voru upplýsingar um að pantanir á vélum drógust þrefalt meira saman í desember en búist hafði verið við, að því er segir í WSJ. Í South China Morning Post er haft eftir sérfræðingi hjá Daiwa SB Investments að vonbrigði með afkomutölur Toray Industries og bilun í viðskiptakerfi framvirkra samninga hafi aukið söluþrýsting þegar leið á daginn.

Hækkun hlutabréfa og vaxta í Ástralíu

Í Ástralíu hækkuðu hlutabréf um 1% í kjölfar hóflegrar hækkunar í Bandaríkjunum í gær. Seðlabanki Ástralíu gekk gegn þeirri bylgju vaxtalækkana sem segja má að einkenni vaxtaákvarðanir þróaðra ríkja um þessar mundir og hækkaði vexti um 0,25% í 7%. Ástæða hækkunarinnar er verðbólguþrýstingur í landinu.